Vita og Jógastúdíó kynna mjúka jógaferð þar sem áherslan er lögð á heilsu, hamingju og hugarró.
Dagana 20.-27. maí, gist er 7 nætur á 4 stjörnu lúxus hóteli. Farastjórar eru Drífa og Hrafnhildur  hjá Jógastúdíó

Ferðalýsing
Miðvikudagur 20. maí.
Flogið út með Icelandair kl. 9:30. Lendum á Tenerife klukkan 15:40 að staðartíma.
Förum í rútu á hótel Sensimar Arona Gran Hotel & Spa. Þetta er fjögurra stjörnu lúxus hotel þar sem allt er til alls og fjölbreytt dagskrá er í boði fyrir þá sem vilja, s.s sundleikfimi, líkamsrækt, spænskukennsla og margt annað.
Þegar við höfum skilað af okkur töskum hittumst við í andyrinu og förum yfir dagskrána, skoðum hótelið og jógasalinn sem er á hótelinu.
Gistingin er með hálfu fæði, morgunmat og kvöldmat.
Eftir kvöldmat er um að gera að fara snemma í háttinn eða taka létta göngu meðfram ströndinni og safna orku fyrir komandi viku.
Kvöldmatarhlaðborðið er opið frá klukkan 18.30 til 21.30 alla daga.

tenerfe_yoga_3.jpg

Fimmtudagur 21. maí.
Við hefjum daginn snemma klukkan 08.15 með mjúku yin yoga og náum úr okkur flugþreytunni. Eftir jógatímann er morgunmatur en morgunverðarhlaðborð er opið frá klukkan 08.00 til 10.00 alla daga.
Frjáls tími er yfir daginn. Klukkan 17.15 hittumst við aftur og förum í endurnærandi hatha jógatíma áður en við höldum út í kvöldið.

tenerfe_yoga_1.jpg

Föstudagur 22. maí
Ferð til vínbónda með Svala hjá Tenerife ferðum, þar sem boðið verður upp á vínsmökkun og dásamlegan Canary mat.
Ferðin er innifalin í verðinu.

tenerfe_yoga_4.jpg

Laugardagur 23. maí.
Sofið út eftir skemmtilegan föstudag. Frjáls tími er yfir daginn. Klukkan 17.15 fyrirlestur með Hrafnhildi þar sem hún verður með styrkleikavinnustofu í anda jákvæðrar sálfræði og aðferðir til streitulosunar. Endað er á endurnærandi slökun

Sunnudagur 24. maí.
Morguninn byrjar á ljúfum jógatíma klukkan 08:15 og förum þaðan í morgunmat. Frjáls tími er yfir daginn. Klukkan 17:15 er fyrirlestur með Drífu þar sem hún kafar dýpra ofan í jógafræðin og jógatími í kjölfarið.

tenerife_almennt_12.jpg

Mánudagur 25. maí.
Jógatími klukkan 08.15. Frjáls tími er yfir daginn. Klukkan 17.15 hittumst við aftur í slökun og tónheilun.

Þriðjudagur 26. maí.
Þetta er síðasti heili dagurinn okkar á eyjunni svo við ætlum að nýta hann vel. Morguninn byrjar á ljúfum hatha jógatíma til að koma sér í gang fyrir daginn. Við hvetjum alla til að njóta þess að slaka á og hlaða sig vel fyrir heimferðina. Frjáls tími er yfir daginn. Samvera síðasta kvöldið, nánari dagskrá síðar.

sensimar_arona_gran_spa_7.jpg

Miðvikudagur 27. maí. 
Heimferðardaginn byrjum við á jógatíma til að mýkja okkur upp fyrir komandi ferðalag. Eftir morgunamatinn klárum við að pakka og taka okkur saman, rúta kemur svo að sækja okkur og keyrir okkur út á flugvöll en við eigum flug heim klukkan 16:40 og áætluð lending í Keflavík er klukkan 21:00.


Um Drífu
Ég er ein af þessum sem fór á byrjendanámskeið í jóga og fann að það var ekki aftur snúið, ég varð ástfangin af jóga. Jógaiðkun hefur veitt mér aðra sýn á lífið, hvað það hefur upp á að bjóða og hvernig ég tekst á við þau verkefni sem það færir mér. Ég lauk kennararéttindum hjá Guðjóni Bergmann árið 2007 og hef verið að kenna síðan. Opnaði Jógastúdíó árið 2010, það sama ár fór ég til Ecuador þar sem ég lagði stund á power/vinyasa jóga og lauk þar öðru kennaranámi. Árið 2012 útskrifaði ég minn fyrst jógakennarahóp og hef gert á hverju ári síðan. Árið 2016 lét ég gamlan draum rætast og fór til Indlands í jógaparadísina Purple Vally þar sem ég iðkaði ashtanga jóga á hverjum degi. Sem jógakennari finn ég hvað það er nauðsynlegt að huga vel að endurmenntun og hlaða batteríin öðru hvoru. Árið 2018 fékk ég það tækifæri að kenna jóga í kakó og jóga retreati í Guatemala sem var bæði mögnuð upplifun og lærdómur í kennslu og iðkun.

Ég hef verið duglega að sækja styttri námskeið erlendis sem og hér heima og hef numið af kennurum á borð við Rodney Yee, David Swenson, Shivu Rea, Darma Mittra, Shanti Desai, Saul David Reye, Jimmy Barkan, Sadi Nardini, Larugu Glaser og fleirum.

Sjálf legg ég mest stund á hatha jóga, yin og vinyasa flæði og finnst æðislegt að blanda þessum aðferðum saman.

Um Hrafnhildi
Ég útskrifaðist sem kennari frá Jógastúdíó árið 2016. Ég starfa sem deildarstjóri hjá Reykjavíkurborg á Velferðarsviði. Ég er með B.A í mannfræði og með diplóma á meistarastigi í jákvæðri sálfræði frá EHÍ. Ég hef lengi haft áhuga á mannrækt, vellíðan og lausnamiðuðum samskiptum. Ég hef lokið Reiki 1 og stundaði hugleiðslu og sjálfsrækt hjá Sálarrannsóknarfélagi Íslands í mörg ár. Ég er einnig fararstjóri hjá Bændaferðum á Vestur-Íslendingaslóðum í Bandaríkjunum og Kanada. Ég kenndi jóga og slökun á Réttargeðdeildinni á Kleppi. Auk þess kenni ég námskeiðið: Styrkur og slökun fyrir konur, 50 ára og eldri.

Ég legg mesta áherslu á að mæta sér í mildi og finna leiðir til að losna undan áreiti og streitu með það að markmiði að auka vellíðan og hamingju.