Yin yoga grunnnámskeið

Grunnnámskeið í yin jóga 6 skipti, 90 mín í senn.
Yin jóga hentar vel flestum, byrjendum jafnt sem langtíma jógaiðkendum, liðugum jafnt sem stirðum, stórum jafnt sem smáum, öllum kynjum, öllum aldri, öllum.Á þessu námskeiði verður farið yfir alla helstu grunnþætti yin jóga, líkamsstöður, nálgun á stöður og beitingu hugans. Farið verður yfir yin hugleiðslutækni og helstu hindranir sem geta mætt iðkendum þar. Eftir námskeiðið ættu nemendurnir að geta farið í yin jóga hvar sem er í heiminum með þá þekkingu sem þarf til að mæta líkama sínum og huga af mýkt og umburðarlyndi.                                                                                                                                 
Hvað er Yin jóga?
Yin jóga er iðkun þar sem stöðum er haldið í tiltölulega lengri tíma en í “hefðbundnu” jóga, þessi kyrrstaða, sé hún iðkuð mjúklega og af varkárni, gerir líkamanum kleift að losa um uppsafnaða spennu og stirðleika í lið- og bandvefjum líkamans. Um helmingur af öllum okkar stirðleika liggur í vefjum líkamans sem umlykja t.d. alla vöðva, liði og bein svo það að geta liðkað til þessa vefi getur bæði valdið spennulosun í líkamanum og vellíðan iðkandans bæði andlega og líkamlega. Þar sem yin jóga er mikið til kyrrstaða í lengri tíma, sitjandi, liggjandi og á fjórum fótum, fær iðkandinn að mæta eigin huga í ró, iðkunin er því kjörið tækifæri til þess að kynnast sínum eigin hugsunum, tilfinningum, hugmyndum og innri líðan í öruggu umhverfi.

Kennari
Námskeiðið er kennt af Elínu Ásbjarnardóttur sem hefur bætt við sig sérþekkingu í yin jógakennslu hjá Summer School of Yin Yoga í Bandaríkjunum. Þar bætti hún við sig bæði þekkingu í líkamsbeitingu í yin iðkun og beitingu hugans í yin jóga.
Innifalið er aðgangur í alla opna tíma í stundatöflu.